Samfélagsleg áhrif rannsókna
Áhrif rannsókna geta verið margvísleg. Orðið impact hefur verið notað yfir öll áhrif rannsókna en hægt er að fjalla um, og flokka, áhrif rannsókna á margvíslegan hátt. Áhrif geta verið bein, óbein, jákvæð, neikvæð, haft samfélagslega skírskotun, birst sem nýsköpun og/eða hagnýting eða beinst fyrst og fremst inn í það fræðasamfélag sem rannsókn var stunduð. Áhrif rannsókna verður oft ekki vart fyrr en löngu eftir að þær fara fram og niðurstöður þeirra kynntar. Ekki er hægt að tryggja samfélagsleg áhrif en hægt er að auka líkurnar á þeim og hafa áhrif á umfang þeirra. Erfitt er þó að spá fyrir um þau og jafnvel erfitt að rekja eftir á.
Þættir sem geta aukið samfélagslegt gildi rannsókna
Að birta sem mest af rannsóknargögnum og -niðurstöðum í opnum aðgangi.
Að skrifa greinar og koma fram í fjölmiðlum og reyna að ná til almennings í gegnum samfélagsmiðla.
Auka þátttöku nemenda í rannsóknarverkefnum.
Gæta þess að rannsóknateymi og samstarsfaðilar endurspegli fjölbreytta hópa samfélagsins
Starfa þvert á fræðasvið, stofnanir og í samstarfi við atvinnulífið í víðum skilningi.
Skilgreiningar og hugtök
Samfélagsleg áhrif
(e. Societal impact) er allt sem hefur áhrif á þróun, hagsæld eða velferð samfélaga og einstaklinga.
Samfélagsleg ábyrgð
(e. Societal responsibility) felur í sér metnað fyrir betrumbótum í samfélagiog getur átt við um umbætur á sviði heilbrigðismála, menningarþátttöku og umhverfismál. Gott dæmi um samfélagslega ábyrgð er ef unnið er að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Samfélagsleg virkni
(e. Contribution to society) er samstarf í tengslum við rannsóknir á milli rannsakenda og aðila í samfélaginu sem ekki tilheyra alla jafna rannsóknasamfélaginu. Samfélagsleg virkni leiðir ekki sjálfkrafa til samfélagslegra áhrifa en getur leitt til þeirra. Þátttaka almennings (e. Public engagement) er góð leið til að auka samfélagslega virkni og geta rannsakendur virkjað hana með margvíslegum hætti svo sem með menntun, í gegnum fjölmiðla eða samfélagsmiðla og rýnihópa.
Félagsleg áhrif
(e. Social impact) eiga frekar við um áhrif á einstaklinga en samfélög. Félagsleg áhrif birtast í viðhorfum einstaklinga til eigin lífs og umhverfis síns. Þau geta haft áhrif á samskipti fólks og hvernig einstaklingar haga hversdegi sínum og birtist t.d. í neyslumynstrum og iðkun hreyfingar og félagslífs. Áhrifavísa væri hægt að meta með samanburðarrannsóknum.
Vísindaleg áhrif rannsókna
(e. Scientific impact) fela í sér birtingar á niðurstöðum rannsókna, samstarf rannsakenda, þátttöku í ritrýni, þróun rannsóknaraðferða og -spurninga og í raun allt sem fellur undir að auðga fræðasamfélagið sem viðkomandi rannsakendur eru hluti af. Áhrifavísar hér eru t.d. birtingar í vísindatímaritum og tilvísanir. Afurðir rannsókna (e. Outputs) eru ekki áhrif í sjálfu sér (t.d. er ein birt grein ekki merki um áhrif en hversu víðlesin hún er og áhrifamikil á aðra rannsakendur getur verið það).
Áhrif á tækninýjungar
(e. Technological impact) geta birst sem stuðningur við rannsóknir og nýsköpun og framlag til þeirra. Áhrifavísar hér eru t.d. einkaleyfi, nytjaleyfi, tilvísanir í einkaleyfi og fleira.
Efnahagsleg áhrif rannsókna
(e. Economic impact) fela í sér nýsköpun, hagnýtingu, aukna samkeppnishæfni, hagvöxt, hagræðingu og aukna atvinnu. Áhrifavísar hér eru almennir hagvísar og fjölgun atvinnutækifæra en erfitt er oft að greina þá frá öðrum áhrifum.
Menningarleg áhrif
(e. Cultural impact) geta haft áhrif á viðhorf og afstöðu einstaklinga og hópa til samfélagslegra málefna svo sem hefða, gilda og mannréttinda og hvernig það birtist ólíkum hópum. Erfitt er að meta áhrifavísa á þessu sviði en hægt er að leggja fyrir kannanir og stunda viðtalsrannsóknir til að reyna að greina áhrif.
Pólitísk áhrif
(e. Political impact) snúast um að hafa áhrif á stofnanir og kerfi samfélagsins. Lýðræðisleg þátttaka og aðild að ákvarðanatöku eru birtingarmyndir og áhrifavísa er hægt að greina út frá breytingum á stefnu, formlegum ályktunum eða á lög.
Kerfislæg áhrif
(e. Organisational impact) má sjá í breytingum á stjórnskipulagi, stjórnsýslu, skipulag vinnuumhverfis og mannauðsmálum. Árangursvísa er t.d. hægt að skoða út frá starfsánægju og skilvirkni.
Heilbrigðisáhrif
(e. Health impact) snúast um lýðheilsu í víðu samhengi. Líkamleg og andleg velferð almennings er í forgrunni og má m.a. sjá árangursvísa í lægri dánartíðni og sjúkrahúsainnlögnum.
Umhverfisleg áhrif
(e. Environmental impact) birtast oftast sem leiðbeiningar um betrumbætur eða stefnumótandi gögn sem verða til vegna rannsókna. Markmið geta verið aukin gæði vatns, lofts og matvæla og árangursvísar geta verið t.d. minni mengun.
Táknræn áhrif
(e. Symbolic impact) geta komið til af rannsóknum og ástundun rannsókna. Sem dæmi má nefna aukið traust til stofnana sem stunda rannsóknir og það gæti birst sem fleiri styrkveitingar eða samstarf.
Fræðslu áhrif
(e. Training/Educational impact) snúast um gæði þjálfunar og menntunar í tengslum við rannsóknir og geta birst sem markvissar áætlanir um þjálfun og leiðbeiningar til ungra rannsakenda. Árangursvísar geta sést í fjölgun útskrifaðra rannsakenda og í meiri og betri afköstum þeirra.
Heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
um sjálfbæra þróun
1. Engin fátækt
2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan
4. Menntun fyrir alla
5. Jafnrétti kynjanna
6. Hreint vatn og hreinlætisaðstaða
7. Sjálfbær orka
8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging
10. Aukinn jöfnuður
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
12. Ábyrg neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
14. Líf í vatni
15. Líf á landi
16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin