Samfélagsleg áhrif rannsókna

Hvernig stuðla rannsóknir við HÍ að betra samfélagi?

Fræðafólk leggur hönd á plóg...

alt=""

Pétur Orri Heiðarsson,
dósent í lífefnafræði


Dr. Pétur Orri, dósent í lífefnafræði hefur ásamt öðrum vísindamönnum við Háskóla Íslands rannsakað hvernig mannslíkaminn nálgast erfðaupplýsingar sem hafa áhrif á alla líkamsstarfsemi. Í rannsókninni eru skoðuð tiltölulega nýuppgötvuð prótein sem, ólíkt öðrum próteinum, eru án fastrar þrívíðrar byggingar. Þessi prótein eru ómótuð og eru vísindamenn rétt byrjaðir að skilja mátt þeirra og mikilvægi í líffræði og sjúkdómum og hvernig þessi prótein hafa áhrif á aðgengi að upplýsingum í erfðamengi mannsins.

Samfélagsleg áhrif


Vísindi og heilsa: Áhrif á þekkingarþróun í lífefnavísindum.

alt=""

Rúna Sif Stefánsdóttir,
lektor við deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda


Dr. Rúna Sif, hefur undanfarin ár verið að rannsaka svefn og tengsl við námsárangur og hugræna þætti hjá íslenskum ungmennum. Rannsóknir Rúnu er partur af verkefninu Heilsuhegðun ungra Íslendinga en það er langtímarannsókn á stöðu heilbrigðisþátta ungra Íslendinga og tengsl þeirra við svefn, hreyfingu og skólaumhverfi. Meginmarkmið Rúnu hefur verið að mæla, með hlutlægum mælikvarða, svefn íslenskra ungmenna á aldrinum 15 til 17 ára, við skólaskiptin úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla, og að skoða hvort svefnmynstur þeirra tengist námsárangri og hugrænum þáttum.

Samfélagsleg áhrif

Heilsa og vellíðan sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

alt=""

Hans Tómas Björnsson,
prófessor við Læknadeild

Dr. Hans Tómas, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands hefur einbeitt sér að rannsóknum á Kabuki-heilkenni, sem orsakast vegna taps á tveimur þáttum sem viðhalda ákveðnum utangenaerfðum. Kabuki-heilkenni veldur þroskaskerðingu, vaxtarskerðingu og truflun á ónæmiskerfinu. Hingað til hefur sú kenning verið viðtekin meðal vísindamanna að ekki sé hægt að lækna þroskaskerðingu eftir fæðingu en Hans Tómas og hans teymi telja rannsóknir sínar og fleiri benda til að sú kenning sé ekki rétt, að minnsta kosti ekki hvað varðar Kabuki-heilkennið. Þvert á móti sé mögulegt að meðhöndla þroskaskerðinguna. Lokatakmark Rannsóknarstofu Hans Tómasar er einmitt að þróa meðferð sem er örugg og dregur úr áhrifum sjúkdómsins.

Samfélagsleg áhrif


Heilsa og vellíðan sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

alt=""

Ásta Jóhannsdóttir,
lektor við Menntavísindasvið


„Rannsóknir skipta okkur öll mjög miklu máli. Það væri erfitt án rannsókna að skapa nýja þekkingu og þróa samfélagið og breyta því til hins betra,“ segir Ásta Jóhannsdóttir, lektor við Menntavísindasvið við Háskóla Íslands. Það kemur ekki á óvart að Ásta orði hlutina með þessum hætti því hún hefur brennandi áhuga á að rannsóknir stuðli að samfélagslegum breytingum.

Ásta leiðir nú stóra rannsókn ásamt Kristínu Björnsdóttur, prófessor við Menntavísindasvið, sem studd er af Rannís en hún kallast „Fötlun á tímum faraldurs“. Í tengslum við rannsóknina unnu þær Kristín að því að kortleggja stöðu fatlaðs fólks á tímum hamfara og benda á leiðir til bæta aðstæður þess.

Samfélagsleg áhrif


Aukinn jöfnuður og heilsa og vellíðan sem eru hluti af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

alt=""

Ólafur Páll Jónsson,
prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið


Fiktað fyrir sjálfbærni í skólum (e. Tinkering for sustainability at School) nefnist verkefni sem hlaut Erasmus+ styrk á dögunum en Ólafur Páll prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið, leiðir það fyrir hönd Háskóla Íslands. Markmið verkefnisins er að styðja við kennara sem vilja stuðla að sjálfbærni í skólum, bæði í formlegri og óformlegri menntun. Verkefnið er unnið með grískum félagasamtökum og Vísindasafninu í Amsterdam sem hefur þróað svokallaðar fiktaðferðir (e. Tinkering) í kennslu.

Samfélagsleg áhrif


Sjálfbærar borgir og samfélög sem er hluti af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

alt=""

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson,
prófessor við deild menntunar og margbreytileika


„Það eru áhyggjur í samfélaginu af brotthvarfi kennara úr starfi og meðal annars því að ungir kennarar staldri stutt við. Stundum færist umræðan út í að hafa meiri áhyggjur af því að það vanti karla en konur í kennslu en það er auðvitað þannig að ef það vantar kennara er lítið spurt um kyn eða aldur – heldur hvort þú getir unnið með börnunum eða unglingunum sem vantar kennara,“ segir Ingólfur. Hann rannsakar ásamt samstarfskonum sínum hvernig nýútskrifuðum konum vegnar fyrstu tvö árin í starfi sem grunnskólakennarar og að hvaða leyti reynsla þeirra í grunnskólum er tengd hugmyndum samfélagsins um kyn og kynhlutverk.

Samfélagsleg áhrif


Jafnrétti kynjanna og menntun fyrir alla sem eru hluti af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

alt=""

Þóroddur Bjarnason,
prófessor í félagsfræði


Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði hefur rannsakað byggðaþróun og búferlaflutninga á Íslandi frá ýmsum sjónarhornum. Meðal viðfangsefna hans má nefna orsakir og afleiðingar búferlaflutninga á Íslandi, áhrif kynhneigðar, slúðurs og eineltis á fyrirætlanir ungs fólks um búferlaflutninga, forspárgildi fyrirætlana fyrir byggðaþróun næstu áratuga, áhrif staðarnáms og fjarnáms á háskólastigi á búsetu brautskráðra háskólanema, áhrif samgöngubóta á byggðaþróun, vinnusókn og upplifun af öryggi í heilbrigðisþjónustu, áhrif búferlaflutninga á afstöðu kaþólikka og mótmælenda til átakanna á Norður-Írlandi, stuðning við Brexit í Bretlandi og umburðarlyndi gagnvart innflytjendum á Íslandi og dreifbýlisvæðingu og vöxt smáborga á Norðurlöndunum.

Niðurstöður þessara rannsókna hafa nýst með margvíslegum hætti við mótun byggðastefnu á Íslandi á undanförnum áratugum.

Samfélagsleg áhrif


Aukinn jöfnuður, menntun fyrir alla og friður og réttlæti sem eru hluti af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

alt=""

Haukur Logi Karlsson
nýdoktor við Lagadeild


Haukur Logi rannsakar hugmyndir að baki samkeppnislöggjöfinni með það fyrir augum að kanna hvort fýsilegt sé að útvíkka hana þannig að hún leggi ekki aðeins áherslu á velferð neytenda heldur einnig starfsfólks. Rannsókninni er ætlað að vera innlegg í þá umræðu sem á sér stað nú um stundir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu um versnandi stöðu starfsfólks í alþjóðavæddum heimi viðskipta, þar sem fyrirtæki stækka í sífellu og samþjöppun markaðsvalds fer stigvaxandi. Í rannsókninni eru kortlagðir þeir möguleikar sem finnast innan hugmyndakerfis samkeppnisréttarins til þess að standa vörð um velferð starfsfólks gagnvart auknu markaðsvaldi fyrirtækja við kaup á starfskröftum.

Samfélagsleg áhrif



Efnahagsleg áhrif: Efnahagur, stjórnmál og samfélag. Kenningarlegur grunnur samkeppnisréttarins rannsakaður, á réttarheimspekilegum grunni og hagfræðilegum grunni.

alt=""

Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir,
doktorsnemi í stjórnmálafræði


„Bakgrunnur minn er í kínverskum fræðum og alþjóðasamskiptum þannig að áhugi minn á Kína og stjórnmálum hefur verið til staðar í töluverðan tíma. Eftir að ég ákvað að fara í doktorsnám vissi ég að mig langaði til að rannsaka aukna veru Kína á norðurslóðum nánar. Eftir að hafa velt upp hugmyndum með leiðbeinanda mínum og legið undir feldi í einhvern tíma varð þetta lokaákvörðunin að verkefni,“ segir Guðbjörg Ríkey um kveikjuna að verkefninu, sem hún hóf fyrir innrás Rússa í Úkraínu.

Hún segist enn fremur hafa mikinn áhuga á kínverskum og rússneskum stjórnmálum og öllu sem viðkemur norðurslóðum. „Ég hef líka brennandi áhuga á öllu sem viðkemur öryggis- og varnarmálum. Þetta viðfangsefni fellur því akkúrat inn í mitt áhugasvið.“

Samfélagsleg áhrif


Friður og réttlæti sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

alt=""

Arnfríður Guðmundsdóttir,
prófessor í guðfræði


Guðfræði og femínismi eru máttarstólpar í rannsóknum dr. Arnfríðar en hún hefur lagt stund á rannsóknir í guðfræði út frá femínisma, m.a. á sviði umhverfisguðfræði. Eitt af leiðarstefjum Arnfríðar hefur verið spurningin um þá reynslu sem tekið er mark á í samfélaginu hverju sinni og hvernig hallar á konur í þeim efnum. Hún telur enn fremur að hlutverk guðfræðinnar sé að túlka og skilgreina samband okkar og náttúrunnar og bendir á að maðurinn hafi lagt náttúruna undir sig á sambærilegan hátt og karlinn hefur drottnað yfir konunni.

Samfélagsleg áhrif


Jafnrétti kynjanna: Að færa guðfræðileg rök fyrir jafnrétti í víðum skilningi, sérstaklega innan kirkjunnar.

Aðgerðir í loftslagsmálum: Sýna fram á mikilvægi hins trúarlega þáttar í aukinni vitund um gildi náttúrunnar og baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.

alt=""

Sif Ríkharðsdóttir,
prófessor í miðaldabókmenntum


Dr. Sif Ríkharðsdóttir, hefur um árabil rannsakað fyrirbærið tilfinningar og tjáningu þeirra í miðaldabókmenntum. Í verkefninu Ómur tilfinninga í miðaldabókmenntum skoðaði Sif samspil tilfinninga og tjáningar þeirra í bókmenntum og setti í samhengi við hugmyndir og skilgreiningar nútímans.

Samfélagsleg áhrif


Menningarleg áhrif: Rannsóknir á íslenskum menningararfi, tengslum hegðunar og tilfinninga í miðaldabókmenntum.

alt=""

Orri Vésteinsson,
prófessor í fornleifafræði


Orri segir að hugmyndir um samfélög fyrri alda séu aldrei nákvæmari en þekkingin sem við höfum á þeim og hlutverk fornleifafræðinnar sé að uppfæra þessar hugmyndir í ljósi nýrra rannsókna. Orri lýsir þessu hlutverki sem sjálfsmyndarviðhaldi. „Í mínum huga er þetta aðferð til þess að rannsaka fólk – og það að rannsaka fólk í fortíðinni gefur okkur víðara sjónarhorn á okkar eigið samfélag.“

Samfélagsleg áhrif


Menningarleg áhrif: Uppfæra þekkingu á samfélögum fyrri alda, varpa fram nýjum spurningum og gera tilraunir til að svara þeim.

alt=""

Paul J Wensween,
rannsóknarsérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindadeild


Dr Paul hefur lagt á stund á rannsóknir sem tengjast hljóð- og hreyfihegðun hvala og höfrunga og viðbrögð þeirra við neðansjávarhljóði frá mönnum.

Núverandi rannsókn Pauls beinir sjónum að ferðum norðlægra hvala og hegðunaráhrif sjósónars á þessa tegund og önnur hvaldýr.

Þessar rannsóknir veita innsýn og aðstoð við að leggja mat á verndarstöðu villtra dýrastofna í náttúrunni og hjálpa sjóherjum og öðrum hávaðaframleiðendum sjávar að draga úr umhverfisáhrifum í starfsemi sinni.

Samfélagsleg áhrif


Líf í vatni sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

alt=""

Camila Pía Canales,
rannsóknasérfræðingur við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild


Dr. Camila Pía kynnti tvö spennandi rannsóknarverkefni sem snúa að sjálfbærri framleiðslu vetnis á árlegri ráðstefnu Functional Materials and Nanotechnology (FM&NT) sem fram fór í Ríga í Lettlandi í júlí.

Annað verkefnið nefnist AliCe-Why og er samvinnuverkefni vísindamanna víða í Evrópu, en að því koma prófessorarnir Christiaan P. Richter og Rúnar Unnþórsson innan HÍ. Meginmarkmið þess er að nýta álúrgang til að framleiða vetni.

Hitt verkefnið tengist framleiðslu á vetni með sjó og framtíðarmöguleikum þess í ljósi þess að ferskvatnsbirgðir heimsins minnka ört.

Samfélagsleg áhrif


Hreint vatn og hreinlætisaðstaða og nýsköpun og uppbygging sem eru hluti af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

alt=""

Majid Eskafi,
nýdoktor í umhverfisverkfræði


Majid vinnur nú að sérhæfðri rannsókn á hafnarstarfsemi í samstarfi við íslenskt atvinnulíf í anda nýrrar stefnu Háskóla Íslands, HÍ26. Í nýju heildarstefnunni er tiltekið að rannsóknir innan HÍ eigi að mæta þörfum íslensks samfélags og atvinnulífs og stuðla að sjálfbærum heimi. Þessi rannsókn Majid Eskafi og samstarfsaðila hefur skýr tengsl við allt þetta.

Í rannsókninni er ætlunin að þróa nýstárlega hafnaráætlun með miklum sveigjanleika sem tryggir reksturinn á tímum stöðugra breytinga og að hagvöxtur allrar starfseminnar sé í sátt við umhverfi og samfélag, bæði nú og þegar til lengri tíma er litið. Í því efni er horft til samfélagslegrar ábyrgðar en rannsóknin er gerð í samstarfi við fjölmarga hagsmunaaðila sem tengjast hafnarstarfsemi Ísafjarðarbæjar. Ísafjörður er með margar hafnir, en sú stærsta er einmitt við Eyrina í kaupstaðnum á Skutulsfirði.

Samfélagsleg áhrif


Sjálfbærar borgir og samfélög og nýsköpun og uppbygging sem eru hluti af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Samfélagsleg áhrif eru áhrif á sjálfbæra þróun,
hagsæld samfélaga eða velferð einstaklinga.

alt=""

Háskóli Íslands

Dæmi um samfélagsleg áhrif...

Menning

Áhrif á skilning hugmynda, veruleika, gilda og viðhorfa.

Efnahagur

Áhrif á söluverð vöru, kostnað og tekjur fyrirtækis eða efnahagslegan ávinning sem birtist í auknum hagvexti eða framleiðni í samfélaginu.

Umhverfi

Áhrif á umhverfið, svo sem á nýtingu náttúruauðlinda, mengun, loftslag og veðurfræði.

Heilsa

Áhrif á lýðheilsu, lífslíkur, lífsgæði, vellíðan og forvarnir gegn veikindum, hvort sem þau eru andleg eða líkamleg.

Stjórnmál

Áhrif á pólitískan stöðugleika og stefnumótun, hvort sem átt er við þá sem móta stefnuna eða hvernig henni er framfylgt.

Vísindi

Áhrif á þróun þekkingar, mótun fræðigreina, þjálfun og hæfniuppbyggingu.

Samfélag

Áhrif á velferð í samfélagi, lífsgæði, hegðun, venjur og athafnir fólks og hópa.

Tækni

Áhrif á nýsköpun, vöruþróun, ferli og þjónustu.

Menntun

Áhrif á námskrá, hjálpargögn til notkunar í kennslu og í uppeldisfræðum og faglega hæfni.

Ráðstefna 11. október 2022